Hefði hæglega getað fótbrotnað

Milan Pavlov fær rauða spjaldið fyrir brotið á Leroy Sané …
Milan Pavlov fær rauða spjaldið fyrir brotið á Leroy Sané sem liggur á vellinum. AFP

Leroy Sané, leikmaður Manchester City og landsliðsmaður Þýskalands í knattspyrnu, slapp vel frá grófu broti í kvöld þegar Þjóðverjar og Serbar gerðu jafntefli, 1:1, í vináttulandsleik í Wolfsburg.

Milan Pavlov fékk rauða spjaldið fyrir að sparka Sané niður á lokamínútum leiksins. Sané fór meiddur af velli en Joachim Löw þjálfari Þjóðverja sagði að meiðslin væru ekki alvarleg og kantmaðurinn yrði klár í stórleikinn gegn Hollendingum í Amsterdam á sunnudaginn en liðin mætast þar í undankeppni EM.

„Þetta var gróft brot. Sané var heppinn og slapp næstum ómeiddur en hann hefði hæglega getað fótbrotnað,“ sagði Löw.

Hann tefldi fram ungu liði og elsti útileikmaðurinn var 24 ára gamall en Löw er að byggja upp nýtt lið eftir hörmulegt gengi Þjóðverja á síðasta ári.

Luka Jovic kom Serbum yfir á 12. mínútu en Leon Goretzka jafnaði fyrir Þjóðverja á 69. mínútu.

Wales sigraði Trínidad og Tóbagó, 1:0, í vináttulandsleik í Wrexham í kvöld. Ben Woodburn, 19 ára leikmaður Liverpool, skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins. Wales byrjar undankeppni EM á heimaleik gegn Slóvakíu á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert