Dramatík hjá Hollandi og Þýskalandi

Nico Schulz fagnar sigurmarki sínu gegn Hollandi á Johann Cruijff …
Nico Schulz fagnar sigurmarki sínu gegn Hollandi á Johann Cruijff Arena í kvöld. AFP

Nico Schulz reyndist hetja Þjóðverja þegar liðið heimsótti Holland í C-riðli undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld en hann skoraði sigurmark Þýskalands á 90. mínútu í 3:2-sigri liðsins. Lereoy Sané og Serge Gnabry komu þýska liðinu yfir í fyrri hálfleik en Matthijs de Ligt og Memphis Depay jöfnuðu metin fyrir Hollendinga í síðari hálfleik áður en Schulz tryggði Þjóðverjum sigurinn.

Í hinum leik C-riðils mættust Norður-Írland og Hvíta-Rússland þar sem Norður-Írar fögnuðu 2:1-sigri. Jonny Evans kom Norður-Írlandi yfir á 30. mínútu en Igor Stasevich jafnaði metin fyrir Hvíta-Rússland, þremur mínútum síðar. Það var svo Josh Magennis sem tryggði Norður-Írum sigur með marki á 87. mínútu. Norður-Írar eru með fullt hús stiga á toppi riðilsins með 6 stig eftir tvo leiki en Þjóðverjar eru í öðru sætinu með 3 stig eftir einn leik og Hollendingar eru í þriðja sætinu með 3 stig eftir tvo leiki.

Robert Lewandowski og Kamil Glik voru á skotskónum þegar Pólland vann 2:0-heimasigur gegn Lettlandi í G-riðlinum en bæði mörkin komu í seinni hálfleik. Þá tók Slóvenía á móti Norður-Makedóníu í G-riðli þar sem liðin sættust á jafntefli, 1:1. Miha Zajc kom Slóveníu yfir á 34. mínútu en Enis Bardhi jafnaði metin fyrir Norður-Makedóníu á 47. mínútu og þar við sat. Pólland er með sex stig í efsta sæti riðilsins eftir tvær umferðir en Ísreal og Norður-Makedónía koma þar á eftir með fjögur stig.

Þeir Eden Hazard og Michy Batshuayi voru á skotskónum í 2:0-útisigri Belga gegn Kýpur í I-riðli en bæði mörkin komu á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Hazard kom Belgum yfir á 10. mínútu og Batshuayi tvöfaldaði forystu Belga, átta mínútum síðar. Belgar eru með fullt hús stiga eða sex stig á toppi riðilsins eftir fyrstu tvær umferðirnar en Rússar og Kazakhstan koma þar á eftir með 3 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert