Glæsilegur danskur viðsnúningur

Danir fagna jöfnunarmarkinu.
Danir fagna jöfnunarmarkinu. AFP

Danmörk náði glæsilegu jafntefli á útivelli gegn Sviss í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta í kvöld, 3:3. Leikurinn var liður í D-riðli. Svisslendingar komust í 3:0 á 76. mínútu en Danir skoruðu þrjú mörk á síðustu sex mínútunum og tryggðu sér gott stig. 

Sviss er í öðru sæti riðilsins með fjögur stig og Danir í þriðja sæti með eitt stig. Írar eru í toppsætinu með sex stig eftir 1:0-sigur á Georgíu á heimavelli. Connor Hourihane skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu á 35. mínútu. 

Lærisveinar Helga Kolviðssonar hjá Liechtenstein fengu skell á móti Ítalíu á útivelli, 6:0 í J-riðli. Fabio Quagliarella skoraði tvö mörk fyrir Ítali, sem voru manni fleiri allan seinni hálfleikinn, eftir að Daniel Kaufmann fékk beint rautt spjald í uppbótartíma fyrri hálfleiks. 

Ítalía er í toppsæti riðilsins með sex stig en Liechtenstein á botninum án stiga. Grikkland og Bosnía eru í öðru og þriðja sæti með fjögur stig eftir 2:2-jafntefli í Bosníu. Bosnía komst í 2:0 í fyrri hálfleik en Grikkland jafnaði með tveimur mörkum í síðari hálfleik. Miralem Pjanic skoraði annað mark Bosníu en fékk beint rautt spjald á 65. mínútu í stöðunni 2:1. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert