Ótrúleg dramatík Norðurlandanna

Það vantaði ekki dramatíkina í Norðurlandaslaginn.
Það vantaði ekki dramatíkina í Norðurlandaslaginn. AFP

Noregur og Svíþjóð skildu jöfn, 3:3, í afar spennandi leik í F-riðlinum í undankeppni EM karla í fótbolta á næsta ári. Norðmenn komust í 2:0, en þurftu samt sem áður jöfnunarmark á sjöttu mínútu uppbótartímans til að tryggja sér stig. 

Bjorn Johnsen skoraði fyrsta mark leiksins á 41. mínútu og kom Norðmönnum yfir. Josh King bætti við öðru marki eftir klukkutíma leik og voru Norðmenn í kjörstöðu. Svíar neituðu hins vegar að gefast upp og þeir fengu víti á 70. mínútu. 

Rune Jarstein varði vítaspyrnu Andreas Granqvist en Viktor Claesson náði frákastinu og skoraði. Robin Quaison nýtti sér meðbyr Svía og jafnaði leikinn á 86. mínútu og kom sænska liðinu svo yfir á fyrstu mínútu uppbótartímans.

Ola Kamara jafnaði hins vegar með skalla eftir hornspyrnu á sjöttu mínútu uppbótartímans og þar við sat. Lærisveinar Lars Lagerbäck í Noregi eru með eitt stig í fimmta sæti riðilsins og Svíar í öðru sæti með fjögur stig. 

Spánverjar eru á toppi riðilsins með sex stig eftir 2:0-útisigur á Möltu. Álvaro Morata skoraði bæði mörkin, hvort í sínum hálfleiknum. Rúmenía náði í sín fyrstu stig með sannfærandi 4:1-heimasigri á Færeyjum. 

Gunnar Nielsen, Rene Joensen, Brandur Olsen og Kaj Leo í Bartalsstovu, sem allir leika með íslenskum liðum spiluðu fyrir Færeyjar, en Jakúp Tomsen, framherji FH, var allan tímann á varamannabekknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert