Hefur tvívegis hafnað Mourinho

Axel Witsel ákvað að ganga til liðs við Dortmund í …
Axel Witsel ákvað að ganga til liðs við Dortmund í stað þess að semja við Manchester United. AFP

Axel Witsel, miðjumaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, greindi frá því í viðtali við þýska fjölmiðla á dögunum að hann hefði tvívegis á ferli sínum hafnað því að vinna með portúgalska knattspyrnustjóranum José Mourinho.

Witsel er orðinn 30 ára gamall en hann gekk til liðs við Dortmund síðasta sumar frá Tianjin Quanjian. „Mér stóð til boða að ganga til liðs við Real Madrid þegar José Mourinho var þar við stjórnvölinn,“ sagði Witsel í samtali við þýska fjölmiðla. „Þeir fengu hins vegar Luka Modric sama sumar og mér fannst þess vegna ekki vera mikil þörf fyrir mig þar.“

„Þegar ég tók þá ákvörðun að yfirgefa Kína sumarið 2018 vildu PSG og Manchester United einnig fá mig. Dortmund hafði samband fyrst og sýndi mér mikinn áhuga. Ég vildi ekki bíða og sjá, ég vildi bara komast að hjá toppliði í Evrópu og ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að hafa samið við Dortmund,“ sagði Witsel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert