Aldur er afstæður

Cristiano Ronaldo er ekki að íhuga það að leggja skóna …
Cristiano Ronaldo er ekki að íhuga það að leggja skóna á hilluna og segist eiga nóg eftir. AFP

Cristiano Ronaldo, sóknarmaður ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, er ekki farinn að íhuga það að leggja skóna á hilluna. Ronaldo verður 35 ára gamall í febrúar á næsta ári en hann hefur verið einn al besti knattspyrnumaður heims, undanfarinn áratug.

Ronaldo greindi frá því á dögunum að hann væri byrjaður að huga að því hvað tæki við hjá sér, eftir knattspyrnuferilinn, og fóru þess vegna af stað umræður um að hann væri að hætta. „Aldur er afstæður,“ sagði Ronaldo í samtali við ítalska fjölmiðla.

„Það er ekkert sem segir að þegar að þú ert 34 ára, 35 ára eða 36 ára að þú sért búinn og eigir ekki mikið eftir. Ég sýni það í hverjum einasta leik sem ég spila að ég á nóg eftir. Ég spila af krafti og ég er mun þroskaðri en ég var fyrir tíu árum síðan.“

„Ég hugsa öðruvísi um fótboltann en ég gerði og ég spila öðruvísi. Það er eini munurinn á mér en ég sýni það reglulega að ég á nóg eftir,“ bætti Portúgalinn við en hann hefur skorað fjögur mörk í sjö leikjum í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert