Ronaldo tæpur að sögn Sarri

Cristiano Ronaldo fer af velli gegn AC Mílanó og Paulo …
Cristiano Ronaldo fer af velli gegn AC Mílanó og Paulo Dybala kemur inn á í staðinn. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Juventus, segir að Cristiano Ronaldo hafi spilað að undanförnu þrátt fyrir hnémeiðsli og fremur eigi að þakka honum fyrir það en að hnýta í að hann hafi gengið fúll af leikvelli. 

„Hann á þakkir skildar fyrir að gefa kost á sér í síðustu leiki þótt hann sé tæpur. Síðasta mánuðinn eða svo hefur hann fundið fyrir sársauka í hné og það háir honum að einhverju leyti,“ segir Sarri en talsvert hefur verið gert úr því að hann tók Ronaldo af velli eftir liðlega klukkutíma leik gegn AC Mílanó í gær. Staðan var það markalaus en Juventus vann 1:0. 

Ronaldo virtist fúll þegar hann fór af velli og gekk til búningsherherbergja. Sky Sport Italia segir ennfremur að Ronaldo hafi yfirgefið leikvanginn áður en leiknum lauk. 

„Sé það rétt þá er það vandamál sem liðsfélagar hans þurfa að útkljá með honum,“ segir Sarri en hann gerir ekki mikið úr því að Ronaldo hafi verið óánægður með skiptinguna. 

„Aðalatriðið er að hann gaf kost á sér til að spila. Ef hann var reiður þegar honum var skipt út af þá er það hluti af leiknum. Það er ósköp eðlilegt að leikmenn verði pirraðir þegar þeim er gert að yfirgefa völlinn en við stjórarnir verðum fyrst áhyggjufullir ef leikmönnum er sama um að vera teknir af velli,“ er haft eftir Sarri á CNN. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert