Ungur íslenskur markvörður í sviðsljósinu

Elías Rafn Ólafsson í markvarðarbúningi Midtjylland.
Elías Rafn Ólafsson í markvarðarbúningi Midtjylland. Ljósmynd/fcm.dk

Markvörðurinn ungi Elías Rafn Ólafsson hefur verið valinn besti markvörður fyrri hluta keppnistímabilsins í vesturriðli dönsku C-deildarinnar í knattspyrnu af blaðinu Århus Stiftstidende sem er gefið út í Árósum.

Þar ver hann mark Aarhus Fremad en hinn 19 ára gamli Elías er í láni hjá félaginu í vetur frá Midtjylland, toppliði dönsku úrvalsdeildarinnar.

Hann er einn þriggja leikmanna Aarhus Fremad í úrvalsliðinu en liðið hefur átt góðu gengi að fagna og er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar. Elías hefur aðeins fengið á sig 10 mörk til þessa í sextán leikjum.

Elías hefur verið varamarkvörður 21-árs landsliðs Íslands í leikjum þess í undankeppni EM í haust og spilaði tvo vináttuleiki með því fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert