Vann í lottó og keypti fótboltafélagið sitt

Hitað upp á Firhill Park, heimavelli Partick Thistle, sem er …
Hitað upp á Firhill Park, heimavelli Partick Thistle, sem er nálægt miðborg Glasgow og rúmar 10 þúsund áhorfendur. Ljósmynd/Partick Thistle

Skotinn Colin Weir hefur gerst aðaleigandi skoska knattspyrnufélagsins Partick Thistle og nýtir til þess auðæfi sem honum áskotnuðust þegar hann fékk sannkallaðan risavinning í stærsta lottói Evrópu, EuroMillions, fyrir átta árum.

Weir, sem er orðinn 71 árs gamall, fékk þá um 160 milljónir punda í lottóinu en það samsvarar um 25 milljörðum íslenskra króna. Hann hefur alla tíð verið dyggur stuðningsmaður Partick Thistle og hafði þegar varið um hálfri þriðju milljón punda til styrktar félaginu, m.a. byggt upp nýtt æfingasvæði fyrir það.

Í ágúst hætti Weir að styrkja félagið þegar fregnir bárust um að erlendir aðilar hygðust festa kaup á því. Stuðningsmenn Partick voru ósáttir við þær fyrirætlanir og fengu heimamenn í Glasgow til að koma í veg fyrir að félagið félli í hendur útlendinga.

Weir ákvað þá að slá til og keypti 55 prósenta hlut í Partick Thistle. „Hópurinn „Thistle for Ever“ kom fram með þá hugmynd að stuðningsmenn myndu eignast félagið og eftir það gerðust hlutirnir hraðar en nokkur hefði ímyndað sér. Þess vegna hef ég boðið þeim þriggja til fjögurra mánaða aðlögunartíma til að koma öllu í rétt horf og ég held að með þessu geti draumurinn um félag í eigu stuðningsmanna orðið að veruleika og farið betur af stað en hægt var að hugsa sér,“ sagði Weir við BBC.

Partick Thistle hefur barist í bökkum undanfarin ár og situr sem stendur í botnsæti skosku B-deildarinnar. Félagið er þó gamalgróið í skoska fótboltanum, er 143 ára gamalt og hefur unnið tvo titla í langri sögu sinni. Partick varð skoskur bikarmeistari árið 1921 og vann deildabikarinn árið 1972. Þá hefur það sex sinnum unnið skosku B-deildina, síðast vorið 2013, og þrisvar leikið í Evrópukeppni. Síðast árið 1995 þegar það vann einmitt sigur á Keflvíkingum, 3:1, í Intertoto-keppninni, en liðin voru þar saman í riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert