Brýtur blað í sögu úkraínsks fótboltaliðs

Árni Vilhjálmsson með forráðamönnum Kolos Kovalivka í dag.
Árni Vilhjálmsson með forráðamönnum Kolos Kovalivka í dag. Ljósmynd/Kolos

Knattspyrnumaðurinn Árni Vilhjálmsson hefur gengið frá samningi við úkraínska úrvalsdeildarfélagið Kolos Kovalivka en samningurinn gildir út þetta keppnistímabil.

Þetta er sögulegur samningur hvað úkraínska félagið varðar en Árni verður fyrsti erlendi leikmaðurinn til að spila með því. Kolos er aðeins sjö ára gamalt félag sem kom á fleygiferð upp neðri deildirnar og leikur nú í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni þar sem það er í áttunda sæti af tólf liðum þegar leiknar hafa verið 14 umferðir í deildinni. Félagið hefur aðsetur í litlum bæ skammt  frá höfuðborginni Kiev.

Árni varð síðasta vetur fyrsti Íslendingurinn til að spila í Úkraínu. Hann lék þá seinni hluta tímabilsins með Chornomorets Odessa og gekk mjög vel, skoraði 7 mörk í 14 leikjum en náði ekki að koma í veg fyrir að liðið félli úr úrvalsdeildinni.

Hann var í láni þar frá Termalica Nieciecza í Póllandi og sneri þangað aftur í sumar en gerði starfslokasamning við Pólverjana stuttu eftir að tímabilið hófst í ágúst.

Árni er 25 ára gamall og lék með Breiðabliki en síðan með Lillestrøm í Noregi og Jönköping í Svíþjóð áður en hann fór til Póllands haustið 2018.

Árni gæti spilað sinn fyrsta leik á morgun en Kolos á þá heimaleik gegn Desna sem er í þriðja sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert