Keflvíkingurinn vann norska bikarinn

Samúel Kári Friðjónsson varð norskur bikarmeistari með Viking í dag.
Samúel Kári Friðjónsson varð norskur bikarmeistari með Viking í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samúel Kári Friðjónsson varð í dag norskur bikarmeistari í knattspyrnu þegar Viking vann 1:0-sigur gegn Haugesund í úrslitaleik á Ullevål, þjóðarleikvangi Norðmanna í Ósló.

Það var Zlatko Tripic sem skoraði sigurmark leiksins á 51. mínútu úr vítaspyrnu en það reyndist eina mark leiksins. Samúel hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á á 76. mínútu. Axel Óskar Andrésson lék ekki með Viking vegna meiðsla en hann hefur verið frá keppni síðan í fyrstu umferð deildarinnar í mars. Viking endaði í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð en Haugesund í því sjöunda.

Þetta er í sjötta sinn sem Viking hampar norska bikarmeistaratitlinum en liðið vann síðast bikarkeppnina fyrir átján árum árið 2001. Odd og Rosenborg hafa unnið keppnina oftast allra eða tólf sinnum hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert