Útilokar brottför

Jadon Sancho er gríðarlega eftirsóttur af stærstu liðum Englands.
Jadon Sancho er gríðarlega eftirsóttur af stærstu liðum Englands. AFP

Michael Zorc, stjórnarformaður þýska knattspyrnufélagsins Borussia Dortmund, útlokar að Jadon Sancho sé á förum frá félaginu þegar janúarglugginn verður opnaður. Sancho, sem er 19 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við brottför frá Þýskalandi, undanfarnar vikur, en hann er á meðal efnilegustu leikmanna í Evrópu í dag.

Gengi Dortmund, undanfarnar vikur, hefur ekki verið neitt sérstakt og var Sancho ósáttur með forráðamenn félagsins og vildi meina að þeir hefðu gert hann að hálfgerðum blóraböggli. Eftir þetta var mikið rætt og ritað um að enski landsliðsmaðurinn væri á förum en Liverpool, Manchester United, Manchester City og Chelsea eru öll sögð afar áhugasöm um leikmanninn.

„Hann er í framtíðaráformum félagsins og það hefur ekki breyst,“ sagði Zorc í samtali við þýska fjölmiðla. „Hann er algjör lykilmaður í okkar liði og það er ekkert sem gæti orðið til þess að hann myndi yfirgefa okkur. Við höfum rætt málin vel og innilega undanfarnar vikur og það er allt í góðu á milli hans og félagsins,“ bætti Zorc við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert