Chelsea naumlega áfram — Stórlið úr leik

Chelsea er komið áfram í 16-liða úrslit.
Chelsea er komið áfram í 16-liða úrslit. AFP

Chelsea tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með 2:1-sigri á Lille frá Frakklandi á heimavelli í kvöld. Stórliðið Inter Mílanó er hins vegar úr leik. 

Chelsea var mikið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Tammy Abraham og César Azpilicueta komu enska liðinu í 2:0 fyrir hlé. Lille sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og Loic Remý, sem eitt sinn lék með Chelsea, minnkaði muninn á 78. mínútu. Nær komst franska liðið hins vegar ekki. 

Valencia fer áfram á kostnað Ajax.
Valencia fer áfram á kostnað Ajax. AFP

Valencia tryggði sér toppsæti H-riðils með 1:0-útisigri á Ajax, sem fór alla leið í undanúrslit á síðustu leiktíð. Rodrigo skoraði sigurmarkið á 24. mínútu og fer Ajax í Evrópudeildina. 

Dortmund tryggði sér annað sæti F-riðils með 2:1-sigri á Slavía Prag á heimavelli. Jadon Sancho kom Dortmund yfir áður en Tomás Soucek jafnaði skömmu fyrir leikhlé. Julian Brandt skoraði hins vegar sigurmark Dortmund á 61. mínútu og sá til þess að Dortmund fór upp fyrir Inter. 

Ítalska liðið fer í Evrópudeildina eftir 1:2-tap fyrir Barcelona á heimavelli. Carles Pérez og Anssumani Fati skoruðu mörk Barcelona sitt hvoru megin við jöfnunarmark hjá Romelu Lukaku. Barcelona hafði þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins. 

Dortmund vann góðan sigur og fer áfram.
Dortmund vann góðan sigur og fer áfram. AFP

Lyon tryggði sér sæti í 16-liða úrslitunum með dramatísku 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Leipzig. Emil Forsberg og Timo Werner skoruðu hvor úr sinni vítaspyrnunni í fyrri hálfleik og komu Leipzig í 2:0, en Houssem Aouar og Memphis Depay skoruðu fyrir Lyon í seinni hálfleik og tryggði liðinu áfram.

Leipzig hafnar í toppsæti riðilsins, Lyon í öðru sæti og Benfica hafnaði í þriðja sæti og fer í Evrópudeildina. Zenit frá Rússlandi rak lestina. 

Inter er úr leik eftir tap fyrir Barcelona.
Inter er úr leik eftir tap fyrir Barcelona. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert