Enn ein skrautfjöðrin í hattinn

Megan Rapinoe.
Megan Rapinoe. AFP

Bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe hefur verið valin íþróttamaður ársins hjá hinu virta íþróttatímariti Sports Illustrated. 

Tímaritið hefur heiðrað íþróttafólk með þessum hætti frá árinu 1954. Langalgengast er að einstaklingur fái verðlaunin en þó hefur komið fyrir að lið fái nafnbótina. Í fyrra varð til dæmis Golden State Warriors fyrir valinu eftir sigur í NBA-deildinni í körfuknattleik. 

Fyrstur til að fá nafnbótina árið 1954 var breski hlauparinn Roger Bannister. Rapinoe er í góðum félagsskap því miklar kempur hafa verið heiðraðar af tímaritinu í gegnum áratugina. Má þar nefna Arnold Palmer, Bill Russell, Billie Jean King, Muhammad Ali, Chris Evert, Jack Nicklaus, Terry Bradshaw, Sugar Ray Leonard, Wayne Gretzky, Edwin Moses, Mary Lou Retton, Joe Montana, Michael Jordan, Tiger Woods, Sammy Sosa, Lance Armstrong, Tom Brady, Michael Phelps og Serena Williams svo einhver séu nefnd. 

Knattspyrnan er ekki sérlega ofarlega á lista vestan hafs og Rapinoe sem varð heimsmeistari í sumar er fyrsti einstaklingurinn sem hlýtur nafnbótina fyrir afrek í knattspyrnunni. En bandaríska kvennalandsliðið í knattspyrnu fékk einnig nafnbótina árið 1999 þegar liðið varð einnig heimsmeistari. 

Rapinoe er 34 ára gömul og var valin besti leikmaður HM í sumar. Hún fékk auk þess Gullboltann (Ballon d'Or) á dögunum. 

Megan Rapinoe stillir sér upp á rauða dreglinum þegar athöfnin …
Megan Rapinoe stillir sér upp á rauða dreglinum þegar athöfnin fór fram í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert