Landsliðsmaður í bann fyrir neyslu kókaíns

Daryl Murphy í leik með írska liðinu á EM í …
Daryl Murphy í leik með írska liðinu á EM í Frakklandi 2016. AFP

Írski knattspyrnumaðurinn Daryl Murphy hefur viðurkennt að hann hafi verið úrskurðaður í leikbann fyrir að neyta kókaíns er hann skemmti sér með vinum sínum. Fékk hann sex vikna bann frá enska knattspyrnusambandinu. 

Murphy var á mála hjá Nottingham Forest í ensku B-deildinni þegar atvikið átti sér stað, en hann leikur nú með Bolton sem er í C-deildinni. Enska knattspyrnusambandið nafngreinir ekki leikmenn sem falla á lyfjaprófi, en Murphy viðurkenndi sjálfur að hafa neytt kókaíns. 

„Ég vil taka það skýrt fram að ég samþykki ekki notkun ólöglegra eiturlyfja. Ég fór í bann í byrjun síðustu leiktíðar eftir að ég tók slæma ákvörðun þegar ég skemmti mér. Það gerðist bara einu sinni og við áttum ekki leik fyrr en nokkru seinna. Ég er ekki stoltur af því sem ég gerði,“ skrifaði Muprhy í yfirlýsingu sem birtist á The Athletic. 

Murphy spilaði 32 landsleiki fyrir Írland á árunum 2007 til 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert