Atlético síðasta liðið í 16-liða úrslit

Atlético Madríd er komið áfram.
Atlético Madríd er komið áfram. AFP

Atlético Madríd varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta er liðið vann 2:0-heimasigur á Lokomotiv Moskvu í lokaumferð riðlakeppninnar. 

João Félix og Felipe skoruðu mörk Atlético og tryggðu liðinu annað sæti D-riðils. Juventus, sem hafði þegar tryggt sér toppsæti riðilsins, vann 2:0-útisigur á Bayer Leverkusen á útivelli. Cristiano Ronaldo og Gonzalo Higuaín skoruðu mörk Juventus. Leverkusen fer í Evrópudeildina. 

Bayern München hefði betur gegn Tottenham.
Bayern München hefði betur gegn Tottenham. AFP

Bayern München vann 3:1-sigur á lærisveinum Josés Mourinhos í Tottenham í München. Kingsley Coman kom Bayern yfir á 14. mínútu, en Ryan Sessegnon jafnaði á 20. mínútu. Bayern átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik þar sem Thomas Müller skoraði í blálok hans. 

Philippe Coutinho bætti við þriðja marki Bayern í seinni hálfleik og tryggði þýska liðinu sigur. Bayern vinnur riðilinn með 18 stig og Tottenham endar í öðru sæti með 10 stig. Olympiacos fer í Evrópudeildina eftir 1:0-sigur á Rauðu stjörnunni á heimavelli. 

Cristiano Ronaldo var á skotskónum í dag.
Cristiano Ronaldo var á skotskónum í dag. AFP

Stórliðin Real Madríd og PSG enda í efstu tveimur sætum A-riðils og unnu þau örugga sigra í kvöld. Mauro Icardi, Pablo Sarabia, Neymar, Kylian Mbappé og Edinson Cavani skoruðu allir í 5:0-sigri PSG á Galatasaray og Rodrygo, Vinícius og Luka Modric skoruðu mörk Real í 3:1-sigri á Club Brugge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert