Ronaldo skaut Juventus á toppinn

Cristiano Ronaldo skoraði tvívegis í dag.
Cristiano Ronaldo skoraði tvívegis í dag. AFP

Juventus er komið aftur í toppsæti ítölsku A-deildarinnar í fótbolta eftir öruggan 3:1-sigur á Udinese í dag. Cristiano Ronaldo átti stóran þátt í sigrinum og skoraði Portúgalinn tvö mörk. 

Ronaldo kom Juventus á bragðið með marki strax á níundu mínútu og um hálftíma síðar bætti hann við öðru marki.

Leonardo Bonucci bætti við þriðja marki Juventus í lok fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 3:0. Ignacio Pusetto skoraði sárabótamark fyrir Udinese í blálokin og þar við sat. 

Juventus er með 39 stig eftir 16 leiki, en Inter á leik til góða og getur farið upp í toppsætið með sigri á Fiorentina í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert