Vill að Zidane taki við franska landsliðinu

Zinedine Zidane stýrir Real Madrid en tekur hann við franska …
Zinedine Zidane stýrir Real Madrid en tekur hann við franska landsliðinu? AFP

Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, vill að Zinedine Zidane taki við sem þjálfari karlalandsliðs þjóðarinnar af hinum sigursæla Didier Deschamps.

Það verður þó ekki strax, enda er Deschamps með samning fram yfir heimsmeistarakeppnina í Katar árið 2022 en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2012 og það varð heimsmeistari undir hans stjórn árið 2018. 

„Didier verður þar og kannski líka eftir það,“ sagði Le Graet í viðtali við Canal + sjónvarpsstöðina. 

„Þegar Didier ákveður að hætta eða samningur við hann verður ekki framlengdur verður Zidane okkar fyrsti kostur í starfið, ef hann verður á lausu,“ sagði forsetinn.

Zidane, einn þekktasti knattspyrnumaður Frakka, er knattspyrnustjóri Real Madrid en óvissa hefur ríkt um hversu lengi hann verði í starfi þar. Hann og Deschamps urðu heimsmeistarar 1998 og Evrópumeistarar 2000 með franska landsliðinu og Deschamps hefur sjálfur bent á Zidane sem tilvalinn eftirmann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert