Þarf að líða vel til að spila vel

Viðar Örn Kjartansson er spenntur fyrir því að reyna fyrir …
Viðar Örn Kjartansson er spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í tyrknesku úrvalsdeildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög sáttur með að vera búinn að klára þetta,“ sagði Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í samtali við mbl.is  eftir að hafa skrifaði undir lánssaming við tyrkneska úrvalsdeildarfélagið Yeni Malatyaspor í dag.

Lánssamningurinn gildir út tímabilið en Viðar Örn kemur til félagsins frá Rostov þar sem hann hefur spilað frá 2018. Yeni Malatyaspor er í níunda sæti deildarinnar með 24 stig en mörg lið voru á eftir Viðari Erni, þar á meðal lið á Englandi, Danmörku og Svíþjóð, en hann ákvað að lokum að fara til Tyrklands.  

„Þetta er klúbbur sem er búinn að vera á eftir mér undanförin tvö ár en það hefur einhvern veginn alltaf hist þannig á að það hefur ekki hentað mér á þeim tímapunkti. Ég hef fylgst vel með þeim að undanförnu og mér líst mjög vel á klúbbinn og allt í kringum hann. Þetta er lið sem skorar mikið af mörkum og þeir spila sóknarbolta, sem hentar mér vel. Það er mun meiri fótbolti í Tyrklandi en í Rússlandi og leikirnir mun opnari. Það verður að viðurkennast að ég er ekki í mínu besta standi og það mun taka mig smá tíma að komast í það. Þeir eru meðvitaðir um það og vonandi fæ ég smá tíma til þess að komast í mitt besta form.

Viðar Örn Kjartansson lék síðast með Rubin Kazan í Rússlandi …
Viðar Örn Kjartansson lék síðast með Rubin Kazan í Rússlandi þar sem hann náði sér ekki á strik. Ljósmynd/AFP

Spenntur fyrir nýjum kafla

Yeni Malatyaspor er frá borginni Malatya í austurhluta Tyrklands og er Viðar spenntur fyrir því að búa í landinu.

„Ég er kominn með smá reynslu af því að búa á framandi slóðum og mér líst mjög vel á þetta. Fólkið hérna er mjög vinalegt og þetta er spennandi. Það er ekki eins og ég sé að fara til Kóreu og það verður gaman að kynnast nýrri menningu og upplifa öðruvísi hluti. Knattspyrnuferillinn er stuttur og svona tækifæri koma ekki á hverjum degi.“

Viðar náði sér aldrei á strik í Rússlandi, hvorki hjá Rostov né Rubin Kazan þar sem hann lék fyrir áramót, og viðurkennir að sjálfstraustið hafi beðið smá hnekki í Rússlandi.

„Ég veit hvað ég get en það kemur vissulega smá hikst þarna í Rússlandi. Það var í rauninni sama hvað maður gerði; ég fékk aldrei tækifæri hjá Rostov. Tíminn hjá Rubin Kazan var einnig erfiður og maður fékk varla færi. Ég missti ánægjuna af fótbolta þarna og manni þarf að líða vel til þess að spila vel vil ég meina. Núna hefst nýr kafli á mínum ferli og ég ætla mér að gera vel hérna og njóta lífsins í leiðinni,“ bætti framherjinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert