Markadrottningin úr leik fram á næsta vetur

Ada Hegerberg fagnar með Lyon.
Ada Hegerberg fagnar með Lyon. AFP

Ada Hegerberg, norska knattspyrnukonan hjá Evrópumeisturum Lyon, verður frá keppni fram á næsta vetur en hún sleit krossband í hné um helgina. Þetta staðfesti hún á Twitter fyrir stundu. 

Hegerberg, sem er 24 ára gömul, hefur verið í hópi bestu knattspyrnukvenna heims undanfarin ár og markaskor hennar fyrir Lyon er einstakt. Hún hefur orðið franskur meistari með liðinu fimm ár í röð og unnið Meistaradeildina fjórum sinnum. Hún var kjörin knattspyrnukona ársins í Evrópu 2016 og hefur verið í hópi þeirra efstu í kjöri FIFA á bestu knattspyrnukonu hems síðustu árin.

Ada Hegerberg við kjörið á knattspyrnukonu ársins í Evrópu 2016.
Ada Hegerberg við kjörið á knattspyrnukonu ársins í Evrópu 2016. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Á þessu tímabili hefur Hegerberg skorað 23 mörk í 17 leikjum fyrir Lyon. Hún hefur tvívegis gert meira en 50 mörk á tímabili fyrir liðið og er samtals búin að skora 216 mörk í 177 mótsleikjum með Lyon frá árinu 2014 þegar hún kom þangað frá Turbine Potsdam í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert