Viðar sjötti í tyrknesku deildinni

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson verður sjötti Íslendingurinn sem spilar í tyrknesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en Yeni Malatyaspor fékk hann í gær lánaðan frá Rostov í Rússlandi út þetta keppnistímabil.

Á undan Viðari hafa leikið í deildinni þeir Atli Eðvaldsson (Genclerbirligi), Eyjólfur Sverrisson (Besiktas), Grétar Rafn Steinsson (Kayserispor), Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Konyaspor) og Ólafur Ingi Skúlason (Genclerbirligi og Karabükspor).

Þar að auki hefur Theódór Elmar Bjarnason leikið í B-deildinni síðustu ár og er núna með Akhisarspor og Kári Árnason lék þar með Genclerbirligi á síðasta tímabili.

Frestað vegna jarðskjálfta

Viðar getur leikið sinn fyrsta leik á sunnudaginn kemur en þá á lið hans útileik gegn Alanyaspor. Yeni Malatyaspor er í 9. sæti af 18 liðum í deildinni. Liðið átti að taka á móti Trabzonspor í deildinni í gær en leiknum var frestað vegna jarðskjálftanna í austurhluta Tyrklands síðasta föstudag þar sem talsverðar skemmdir urðu í Malatya og nágrenni. Upptök stærsta skjálftans voru 45 km frá Malatya og fjórir létust í borginni.

Viðar sagði í viðtali við mbl.is í gær að tyrkneska félagið væri búið að reyna að fá sig í tvö ár. Sér litist mjög vel á það og allt í kringum liðið sem skori mikið af mörkum og spili sóknarfótbolta sem ætti að henta sér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert