Markalaust hjá Íslendingaliðunum

Alfreð Finnbogason var fjarri góðu gamni hjá Augsburg í kvöld …
Alfreð Finnbogason var fjarri góðu gamni hjá Augsburg í kvöld vegna meiðsla. Ljósmynd/Augsburg

Landsliðsmennirnir Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg, og Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Paderborn, léku ekki með liðum sínum þegar þau mættust í Augsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld vegna meiðsla. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en Augsburg er með 31 stig í tólfta sæti deildarinnar á meðan Paderborn er með 19 stig í átjánda og neðsta sætinu.

Þá vann Hoffenheim 3:1-heimasigur gegn Köln þar sem Christoph Baumgartner skoraði tvívegis fyrir Hoffenheim og þá skoraði Steven Züber eitt mark. Florian Kainz minnkaði muninn fyrir Köln í stöðunni 3:0 en Köln er með 34 stig í ellefta sæti deildarinnar. Hoffenheim er í sjöunda sætinu með 39 stig, þremur stigum minna en Wolfsburg sem er í sjötta sætinu.

Rouwen Hennings og Kenan Karaman skoruðu hvor sitt markið fyrir Fortuna Düsseldorf sem kom til baka gegn Schalke og vann 2:1-sigur eftir að Weston McKennie hafði komið Schalke yfir á 53. mínútu. Fortuna Düsseldorf er áfram í sextánda sæti deildarinnar sem er jafnframt umspilssæti um fall úr deildinni en liðið er með 27 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Schalke er í níunda sætinu með 37 stig.

Þá gerðu Union Berlín og Mainz 1:1-jafntefli í Berlín þar sem Bote Baku kom Mainz yfir á 13. mínútu. Marcus Ingvartsen jafnaði metin fyrir Union Berlín á 33. mínútu og þar við sat. Union Berlín er í þrettánda sæti deildarinnar með 31 stig en Mainz er í fimmtánda sætinu með 28 stig, einu stigi frá umspilssæti um fall úr deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert