Púað á leikmenn sem krupu á hné

Leikmenn krjúpa á hné í leik í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.
Leikmenn krjúpa á hné í leik í MLS-deildinni í Bandaríkjunum. AFP

Afar ósmekkleg uppákoma átti sér stað í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu í Texas í gær þegar FC Dallas og Nashville mættust í MLS-deildinni.

Leikmenn liðanna hófu leikinn á því að krjúpa á hné en slík athöfn hefur tíðkast í knattspyrnuleikjum víða um heim til að minnast Bandaríkjamannsins George Floyd sem var drepinn af lögreglumanni þar í landi í sumar. Atvikið náðist á myndbandi og brutust út hörð mótmæli í kjölfarið en þau snerust fyrst og fremst um lögregluofbeldi í garð þeirra sem eru dökkir á hörund í landinu.

Knattspyrnuhreyfingin hefur reynt að sýna stuðning í verki, m.a. með því að leikmenn krjúpa fyrir hvern leik en í Frisco var uppátækinu afar illa tekið af áhorfendum, sem púuðu á leikmenn. Áhorfendur eru leyfðir á sumum leikjum í Bandaríkjunum.

„Þeir skilja ekki af hverju við gerum þetta, þeir sjá ekki ástæðuna og halda að við séum fáfróðir,“ sagði hundsvekktur Reggie Cannon, leikmaður Dallas, við fjölmiðla eftir leik. „Þetta særir mig. Ég elska stuðningsmennina okkar og ég elska félagið og ég vil sjá sama stuðning frá þeim og öllum öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert