Eiður um Maradona: Hann heilsaði mér

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi leikmaður Chelsea og Barcelona, hitti Diego Maradona eitt sinn á æfingasvæði Barcelona þegar hann lék með spænska liðinu.

Maradona lést úr hjartaáfalli í Buenos Aires í Argentínu á miðvikudaginn síðasta en hann er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar. 

Eiður Smári lagði skóna á hilluna árið 2016 en hann er í dag þjálfari FH og er einn af sérfræðingum Símans Sport um enska boltann.

Eiður Smári sagði skemmtilega sögu af kynnum sínum við Maradona í myndveri Sjónvarps Símans í dag en Eiður lék með Barcelona frá 2006 til ársins 2009 og varð meðal annars Evrópumeistari með liðinu.

„Maradona var þjálfari argentínska landsliðsins á þessum tíma og gengur inn á æfingasvæði Barcelona,“ sagði Eiður.

„Maður fann strax fyrir því að þarna var stórstjarna að mæta á svæðið og þótt það hafi verið nokkrar stjörnurnar þarna í Barcelona á þessum tíma þá var sú stærsta að ganga inn á æfingasvæðið.

Hann kemur svo til mín og heilsar mér með „Guddy“ og ég auðvitað bara í skýjunum yfir því að hann skyldi heilsa mér að fyrra bragði,“ sagði Eiður meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert