Kolbeinn á förum frá AIK

Kolbeinn Sigþórsson í landsleik gegn Belgíu í október síðastliðnum.
Kolbeinn Sigþórsson í landsleik gegn Belgíu í október síðastliðnum. Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Sigþórsson er á förum frá knattspyrnufélaginu AIK í sænsku úrvalsdeildinni þegar leiktímabilinu þar í landi lýkur.

Kolbeinn samdi við AIK í mars árið 2019 og átti sá samningur að gilda út tímabilið 2021.

Samkvæmt sænska dagblaðinu Expressen var frammistöðuákvæði í samningnum þar sem AIK er gert kleift að rifta samningnum fyrr og hefur liðið ákveðið að nýta sér ákvæðið.

Kolbeinn getur því nú þegar hafið leit að nýju liði og samið við það frá og með janúar á næsta ári.

Kolbeinn hefur spilað 18 leiki í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, flesta eftir að hafa komið inn á sem varamaður, og ekki enn náð að skora. Á síðasta tímabili skoraði hann 3 mörk í 17 leikjum.

Kolbeinn hefur skorað 26 mörk í 60 landsleikjum og er þar jafnmarkahæstur ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.

Tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni lýkur um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert