Íhugaði að hætta eftir gríðarlega erfið ár

Aron Jóhannsson í leik með Hammarby.
Aron Jóhannsson í leik með Hammarby. Ljósmynd/Hammarby

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson hefur átt góðu gengi að fagna með sænska liðinu Hammarby undanfarnar vikur og skorað tólf mörk í síðustu fimmtán leikjum í sænsku úrvalsdeildinni. Er hann búinn að skora alls tólf mörk í 22 leikjum á tímabilinu en hann hefur fimmtán sinnum verið í byrjunarliði á leiktíðinni.

„Síðustu mánuðir hafa verið mjög góðir,“ sagði Aron við Morgunblaðið. „Ég byrjaði árið þokkalega þegar við fórum að keppa í bikarnum, þá skoraði ég þrjú mörk í þremur leikjum eftir gott undirbúningstímabil og var klár í tímabilið en svo fæ ég Covid 2-3 vikum fyrir fyrsta leik hjá okkur. Ég var farinn að vonast til að geta byrjað tímabilið almennilega og byrja þetta strax, en svo fékk ég Covid og það rann úr mér öll orka,“ sagði Aron sem var kominn á völlinn fljótlega eftir að hann jafnaði sig á veikindunum og var í byrjunarliðnu gegn Elfsborg í 2. umferð. Framherjinn fór af velli í hálfleik.

Of hratt af stað eftir Covid

„Þegar tímabilið byrjaði var ég settur í byrjunarliðið strax í öðrum leiknum sem ég var greinilega ekki tilbúinn í út af Covid. Í kjölfarið lenti ég í meiðslum á fæti eftir að ég var tæklaður, ég fékk takka í ristina. Það hélt mér frá í 2-3 vikur og á 2-3 vikum spilaði liðið 6-7 leiki því það var spilað mjög þétt í byrjun. Það var svo erfitt að koma sér aftur í gang því þetta voru meiðsli á fæti og ég meiddist aftur fljótlega eftir að ég var kominn af stað aftur. Þá missti ég aftur af nokkrum leikjum svo það má segja að ég byrjaði ekki tímabilið almennilega fyrr en í tólfta leik, eitthvað svoleiðis. Þá var ég að komast í gang og var að komast í gott leikform og um leið og ég fór að spila 90 mínútur leik eftir leik þá small þetta allt saman,“ sagði hann.

Aron viðurkennir að það hafi verið erfitt að meiðast en hann spilaði afar lítið frá 2015 til 2018 vegna þrálátra meiðsla. „Ég hafði ekki beint áhyggjur af að tímabilið myndi fara í vaskinn en ég viðurkenni að það komu upp hugsanir; á maður að nenna að standa í þessu? Að meiðast alltaf aftur og aftur? Innst inni í hausnum á mér vissi ég samt að ég þurfti bara tvo, þrjá eða fjóra leiki, 90 mínútur, til að komast í alvöruleikform og þá myndi allt smella og sú varð raunin. Ég hef aldrei efast um getuna hjá mér. Ég hef bara verið óheppinn með meiðslin síðustu ár en alltaf þegar ég er heill hef ég staðið mig vel.“

Viðtalið við Aron í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert