Bandarískt lið með tilboð í Arnór

Arnór Ingvi Traustason í leik Íslands og Danmerkur í haust.
Arnór Ingvi Traustason í leik Íslands og Danmerkur í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu gæti verið á förum frá sænsku meisturunum Malmö til Bandaríkjanna.

Kvällsposten segir að Malmö hafi fengið tilboð í Arnór  frá New England Revolution sem leikur í MLS-deildinni vestanhafs, og fullyrt er að honum standi þar til boða mjög álitlegur samningur.

Eins segir blaðið að fleiri hafi augastað á Arnóri og nefnir til sögunnar ítalska B-deildarliðið Lecce.

Arnór er samningsbundinn Malmö út þetta ár. Hann er 27 ára gamall og hefur leikið undanfarin þrjú tímabil með sænska félaginu en áður með AEK í Grikklandi, Rapid Vín í Austurríki, Norrköping í Svíþjóð, Sandnes Ulf í Noregi og Keflavík. Arnór hefur orðið sænskur meistari með bæði Malmö og Norrköping. Hann á 37 A-landsleiki að baki og hefur skorað í þeim fimm mörk.

„Við segjum aldrei neitt um svona mál. Arnór er okkur mjög mikilvægur leikmaður, það er okkar útgangspunktur og við vonum að hann verði með okkur áfram og taki þátt í frábæru ári með okkur. En við vitum aldrei hvað gerist. Hann er samningsbundinn okkur og það er útgangspunkturinn," sagði Daniel Andersson framkvæmdastjóri Malmö við Kvällposten þegar hann var spurður um Arnór og sagt að blaðið hefði mjög öruggar heimildir fyrir áhuga bandaríska og ítalska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert