Celtic minntist Jóhannesar og sýndi mörk (myndskeið)

Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic.
Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic.

Skoska knattspyrnufélagið Celtic minntist Jóhannesar Eðvaldssonar, fyrrverandi leikmanns síns, með einnar mínútu þögn fyrir leik gegn Hamilton í úrvalsdeildinni í gærkvöld.

Jafnframt birti Celtic myndskeið á samfélagsmiðlum sínum þar sem sjá má þrjú af þeim mörkum sem Jóhannes skoraði fyrir félagið en á fimm árum skoraði hann 36 mörk í 188 mótsleikjum fyrir Celtic, þar af 24 mörk í 127 leikjum í úrvalsdeildinni. 

Celtic vann leikinn í  gærkvöld, 2:0, en er 23 stigum á eftir Rangers í baráttunni um skoska meistaratitilinn. Jóhannes varð tvisvar skoskur meistari með Celtic, 1977 og 1979, og stuðningsmenn félagsins minnast ekki síst framgöngu hans í hreinum úrslitaleik gegn Rangers í lokaumferðinni vorið 1979 þegar Celtic vann 4:2 eftir að hafa lent undir og misst mann af velli með rautt spjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert