Zlatan gagnrýndur fyrir að syngja á hátíð í Sanremo

Zlatan Ibrahimovic er margt til lista lagt.
Zlatan Ibrahimovic er margt til lista lagt. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic sem leikur með AC Milan kemur fram á tónlistarhátíð í ítölsku borginni Sanremo í næstu viku.

Þar munu hann og Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna, syngja saman dúett og koma fram fjögur kvöld af þeim fimm sem hátíðin stendur yfir.

Ítalskir fjölmiðlar hafa heldur betur velt sér upp úr þessu og tveir gamalreyndir þjálfarar hafa gagnrýnt Svíann harðlega fyrir að taka að sér verkefni eins og þetta á miðju keppnistímabili þar sem AC Milan er í baráttu um ítalska meistaratitilinn.

„Liðið á að ganga fyrir, alltaf. Hann átti að hætta við," sagði Arrigo Sacchi, fyrrverandi stjóri AC Milan, við Gazzetta dello Sport, en fram hefur komið að hann samdi um að koma fram á hátíðinni áður en hann gerði nýjan samning við AC Milan síðasta sumar.

„Hann vildi þetta. En atvinnumaður sem vill vera tekinn alvarlega og sýna fordæmi á æfingum, passar ekki inn í svona lagað, að mínu mati," sagði Fabio Capello við Sky Sport Italia.

Fyrrverandi eigandi AC Milan og forsætisráðherra Ítalíu á árum áður, Silvio Berlusconi, er ekki ánægður með hlut félagsins í málinu. „Ibra hlýtur að hafa þurft á hvíld að halda því að öðrum kosti gæti ég ekki skilið hvers vegna AC Milan hafi samþykkt svona nokkuð," sagði Berlusconi við fréttamenn.

Zlatan er orðinn 39 ára gamall en er markahæsti leikmaður AC Milan í A-deildinni á þessu tímabili með 14 mörk og þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Lið hans á að mæta Udinese á miðvikudaginn í næstu viku og Hellas Verona á  sunnudaginn. Talsmaður AC Milan sagði við Reuters að þátttaka Zlatans í hátíðinni myndi ekki trufla þátttöku hans í leikjunum. Eini dagurinn sem Svíinn kemur ekki fram er einmitt miðvikudagurinn og hátíðinni lýkur á laugardaginn. Zlatan verður með þjálfara frá AC Milan með sér í Sanremo sem er á ítölsku Rivierunni á norðvesturströnd Ítalíu, skammt frá  frönsku landamærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert