Tíu leikja bann fyrir kynþáttaníðið í Glasgow

Glen Kamara og Ondrej Kudela í handalögmálum eftir að leikurinn …
Glen Kamara og Ondrej Kudela í handalögmálum eftir að leikurinn í Glasgow var flautaður af. AFP

Tékkneski knattspyrnumaðurinn Ondrej Kudela hefur verið úrskurðaður í tíu leikja bann fyrir að beita finnska leikmanninn Glen Kamara, leikmann Rangers, kynþáttaníði í viðureign liðanna í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.

Leikur liðanna fór fram í Glasgow 18. mars og var síðari viðureignin í sextán liða úrslitunum þar sem Slavia sigraði 2:0 og þar með 3:1 samanlagt.

Kamara hefur jafnframt verið úrskurðaður í þriggja leikja bann af UEFA fyrir að ráðast að Kudela eftir að leiknum lauk.

Kudela hefur þegar tekið út einn leik í banninu en hann fékk eins leiks bann til bráðabirgða á meðan málið var rannsakað og lék því ekki með Slavia í jafnteflisleiknum gegn Arsenal í átta liða úrslitunum í London í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert