UEFA staðfestir nýtt fyrirkomulag Meistaradeildar karla

Meistaradeild Evrópu tekur breytingum frá og með 2024.
Meistaradeild Evrópu tekur breytingum frá og með 2024. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, staðfesti á ársþingi sínu í dag nýtt keppnisfyrirkomulag í Meistaradeild karla sem tekur gildi frá og með keppnistímabilinu 2024-25.

Liðum sem taka þátt í aðalkeppni Meistaradeildarinnar verður fjölgað úr 32 í 36. Ekki verður um hefðbundna riðlakeppni að ræða heldur mun hvert lið fyrir sig mæta tíu mismunandi mótherjum, fimm á heimavelli og fimm á útivelli, í stað þess að leika tvöfalda umferð í fjögurra liða riðli.

Efstu átta liðin að tíu umferðum loknum komast síðan beint í sextán liða úrslit en liðin í níunda til 24. sæti leika eina útsláttarumferð, heima og heiman, um sæti í sextán liða úrslitunum.

Svipað keppnisfyrirkomulag verður í Evrópudeild karla, nema þar leika liðin átta leiki í stað tíu í Meistaradeildinni. Nýja Evrópukeppnin sem bætist við árið 2024, UEFA Europa Conference League, verður með sex leikjum á lið. Ekki er búið að útfæra endanlega liðafjöldann í tveimur síðarnefndu mótunum.

Sem fyrr vinna félög sér sæti í Meistaradeildinni og hinum keppnunum með árangri sínum í deildakeppni einstakra landa í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert