Íslendingarnir fallnir

Anna Björk Kristjánsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir …
Anna Björk Kristjánsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir á æfinga íslenska kvennalandsliðsins á Laugardalsvelli sumarið 2017. mbl.is/Golli

Knattspyrnukonurnar Anna Björk Kristjánsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir féllu með liði sínu Le Havre úr frönsku 1. deildinni í dag þegar liðið tapaði 2:0 á heimavelli fyrir toppliði PSG í 20. umferð deildarinnar.

Nadia Nadim og Marie-Antoinette Katoto skoruðu mörk PSG í sitt hvorum hálfleiknum en þær Anna Björk og Berglind Björg léku báðar allan leikinn með Le Havre.

Le Havre þurfti að vinna í dag til þess að eiga von um að halda sæti sínu í deildinni þar sem Soyaux, sem er í tíunda sæti deildarinnar, vann 1:0-sigur gegn Fleury á heimavelli í gær.

Le Havre er í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig eftir tuttugu leiki, 9 stigum frá öruggu sæti, þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert