Geta frestað leikjum vegna smita en ekki hjartastopps

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, á blaðamannafundinum í dag.
Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, á blaðamannafundinum í dag. AFP

Kasper Hjulmand, þjálfari danska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur gagnrýnt Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, harðlega fyrir að hafa ekki veitt liðinu meira svigrúm þegar kom að því að fresta leik Danmerkur og Finnlands eftir að Christian Eriksen fór í hjartastopp meðan á leiknum á laugardaginn stóð.

Danska liðinu voru boðnir tveir kostir af UEFA; að halda leiknum áfram síðar um daginn eða fresta honum til hádegis daginn eftir. Danir völdu fyrri kostinn þar sem þeim þótti ekki fýsilegt að sofa ekkert um nóttina og spila daginn eftir.

UEFA tilkynnti að leiknum hefði verið haldið áfram að beiðni leikmanna beggja liða en Hjulmand segir það af og frá að Danir hafi átt frumkvæði að því.

„Það er alrangt að láta líta út fyrir að það hafi verið við sem áttum frumkvæðið að því að halda leiknum áfram sama dag, eins og það hefði verið okkar fyrsti kostur. Við höfðum bara val um þessa tvo kosti,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag.

Kergja er milli danska liðsins og UEFA vegna þess þrýstings sem Danir voru beittir um að halda leik áfram.

„Svo er hægt að rökræða það hvort við höfum verið beittir þrýstingi. Mér fannst sem leikmennirnir, og við sem tengjumst þeim náið, hafi verið settir undir pressu og fengið þessa valþröng í fangið. Það voru mjög erfiðar aðstæður að vera í,“ bætti Hjulmand við.

Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins, virtist á meðal annarra ekki …
Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins, virtist á meðal annarra ekki fyllilega reiðubúinn til þess að halda leik áfram á laugardaginn. AFP

Hann benti einnig á hversu mjög það skjóti skökku við að samkvæmt nýjum reglum UEFA í tengslum við kórónuveirusmit megi fresta leikjum um allt að tvo sólarhringa ef ákveðið margir leikmenn greinast smitaðir og þurfa að fara í einangrun en það sé hins vegar ekki hægt þegar leikmaður fari í hjartastopp.

„Alvöruleiðtogahæfni [af hálfu UEFA] hefði markast af því að koma leikmönnunum í rútu og senda þá heim, og fást svo við eftirköstin síðar. Þegar kórónuveirusmit koma upp er mögulegt að fresta leik um 48 klukkustundir en þegar um hjartastopp er að ræða virðist það ekki vera hægt. Það finnst mér rangt. Maður sýnir ekki alltaf af sér góða leiðtogahæfni með því að styðjast við reglur. Góð leiðtogahæfni felur stundum í sér að leiða af samkennd,“ sagði Hjulmand einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert