Annað jafntefli Spánverja – Moreno klúðraði víti

Robert Lewandowski fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Robert Lewandowski fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld. AFP

Spánn og Pólland skildu jöfn, 1:1, í hörkuleik í E-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu karla í kvöld. Spánn hefur nú gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum og Pólland er búið að ná í sitt fyrsta stig.

Mateusz Klich átti fyrstu almennilegu tilraunina  6. mínútu þegar mjög gott skot hans fyrir utan teig endaði ofan á markinu.

Á 25. mínútu tóku Spánverjar svo forystuna þegar Gerard Moreno „köttaði“ inn af hægri kantinum á vinstri fótinn, tók misheppnað skot en Álvaro Morata var viðbúinn því og potaði boltanum yfir línuna.

Markið var upphaflega dæmt af vegna rangstöðu en eftir að VAR skoðaði það nánar var réttilega ákveðið að gefa mark.

Á 36. mínútu komust Pólverjar nálægt því að jafna metin. Þeir brunuðu þá í skyndisókn, Robert Lewandowski gaf fyrir á Karol Swiderski sem tók boltann á lofti og skaut yfir af örstuttu færi.

Pólverjar fengu svo tvö dauðafæri til viðbótar á 43. mínútu. Tymoteusz Puchacz þrumaði fyrst í stöngina, Lewandowski náði boltanum og var einn gegn Unai Simón í marki Spánar en skaut beint á hann.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Moreno svo nálægt því að tvöfalda forystu Spánar þegar hann fékk fyrirgjöf frá Jordi Alba en skot hans í hliðarnetið.

Staðan því 1:0, Spánverjum í vil, í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum, á 54. mínútu, jöfnuðu Pólverjar loks metin og var þar að verki markahrókurinn Lewandowski. Hann fékk þá góða fyrirgjöf frá Kamil Jozwiak af hægri kantinum og stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann laglega, óverjandi í nærhornið.

Staðan orðin 1:1 en örskömmu síðar, á 57. mínútu, fengu Spánverjar vítaspyrnu eftir að dómari leiksins hafði hlaupið að VAR-skjánum. Jakub Moder traðkaði þá á Moreno.

Moreno tók vítaspyrnuna sjálfur en setti boltann í stöngina. Morata náði að fylgja á eftir en skot hans fór vel fram hjá.

Spánverjar voru áfram líklegri til þess að tryggja sér stigin þrjú og fékk Ferran Torres til að mynda frían skalla á 73. mínútu eftir fyrirgjöf frá Marcos Llorente en hann fór fram hjá markinu.

Á 81. mínútu reyndi Rodri skot úr D-boganum eftir að Moreno hafði lagt boltann út en það fór beint á Wojciech Szczesny í marki Pólverja.

Tveimur mínútum síðar fékk Morata gullið tækifæri en Szczesny gerði frábærlega í að stökkva út á móti og verja skot Morata af markteig. Boltinn barst út til Torres en skotið hans fór fram hjá.

Þar við sat og liðin sættust á jafnan hlut.

Eftir þessi úrslit eru Svíþjóð og Slóvakía enn í tveimur efstu sætum E-riðilsins, Svíþjóð með fjögur stig og Slóvakía með þrjú.

Þar á eftir kemur Spánn með tvö stig og Pólland með eitt. Það er því allt galopið fyrir lokaumferð riðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert