Hjartað sló ekki í 78 mínútur

Frískur Fabrice Muamba heimsækir White Hart Lane í Lundúnum nokkrum …
Frískur Fabrice Muamba heimsækir White Hart Lane í Lundúnum nokkrum mánuðum eftir að hann fór þar í hjartastopp árið 2012. Hann þurfti að leggja skóna á hilluna eftir atvikið. AFP

Milljónir manna fylgdust agndofa með í sjónvarpinu þegar danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen fór í hjartastopp í miðjum landsleik Dana og Finna um liðna helgi. Fáir tengdu þó betur við það sem átti sér stað en Englendingurinn Fabrice Muamba sem sjálfur fór í hjartastopp í leik með Bolton Wanderers gegn Tottenham Hotspur í ensku bikarkeppninni árið 2012, aðeins 23 ára að aldri.

Eins og með Eriksen þá fylgdust margar milljónir manna með því gerast í beinni sjónvarpsútsendingu. Mun lengri tíma tók að koma Muamba aftur til lífs en hjarta hans sló ekki í 78 mínútur. Læknar beggja liða og hjartasérfræðingur úr röðum áhorfenda hlúðu heillengi að Muamba á vellinum áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Hjartastuðtæki var margbeitt, bæði á vellinum og í sjúkrabílnum. Á endanum tókst mönnum að fá hjartað til að slá og var leikmanninum haldið sofandi í öndunarvél næstu daga.

Tveimur dögum síðar var hjartað farið að slá eðlilega án aðstoðar og Muamba ekki lengur í lífshættu enda þótt ástand hans væri áfram alvarlegt. Fjórum dögum eftir áfallið staðfesti læknir að meðferðin gengi vonum framar og Muamba ætti góða möguleika á að lifa eðlilegu lífi. Mánuði síðar var hann útskrifaður af spítalanum með bjargráð en að öðru leyti heilbrigður. Muamba lagði þó skóna á hilluna að læknisráði um haustið en hefur verið viðloðandi knattspyrnu síðan; nú sem unglingaþjálfari hjá Rochdale.

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. Rax / Ragnar Axelsson

Tómas Guðbjartsson, prófessor í hjartalækningum og yfirlæknir á Landspítalanum, segir bata Muamba mjög merkilegan en skýringin liggi öðru fremur í stöðugu hjartahnoði og fjölmörgum hjartastuðum sem leikmaðurinn fékk en þannig var unnt að koma súrefni upp í heilann. 

Að sögn Tómasar er ytra hjartahnoð algjört lykilatriði við þessar aðstæður. Oftast er um að ræða svokallað sleglatif eða sleglahraðtakt sem gerir það að verkum að hjartað nær ekki að dæla blóði, súrefni berst ekki til heilans og sjúklingurinn missir meðvitund. „Beiti maður ytra hjartahnoði og þrýsti þannig á vinstra slegilinn er mögulegt að kreista blóð út úr honum og tryggja súrefnisflæði til heilans. Þetta þarf ekki að vera mikið blóð til heilans til að varðveita heilastarfsemina.“

Arfgengur sjúkdómur

Ekki hafa allir verið svona heppnir. Þekktasta dauðsfallið sem borið hefur að með þessum hætti er án efa Marc-Vivien Foé, 28 ára gamall landsliðsmaður Kamerún, sem hneig niður seint í leik gegn Kólumbíu í undanúrslitum álfukeppninnar árið 2003 í Lyon í Frakklandi. Eins og með Eriksen og Muamba urðu fjölmargir vitni að því atviki í beinni útsendingu sjónvarps. Mönnum var strax ljóst að alvara væri á ferðum og þeir sem sáu gleyma aldrei líflausum líkama Foés liggjandi á vellinum. Til að byrja með var hlúð að honum á staðnum en þegar það bar ekki árangur var leikmaðurinn borinn af velli á börum, þar sem menn freistuðu þess að hnoða hann og blása í hann lífi í 45 mínútur. Foé var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna á sjúkrahús. Tvær krufningar þurfti til að finna dánarorsökina sem var arfgengur hjartasjúkdómur, hjartavöðvakvilli, sem veldur því að hjartað stækkar og eykur líkurnar á skyndidauða við mikla áreynslu.

Idriss Kameni og Rigobert Song hlýða á þjóðsöng Kamerún fyrir …
Idriss Kameni og Rigobert Song hlýða á þjóðsöng Kamerún fyrir úrslitaleikinn í álfukeppninni 2003 með flennistóra mynd af nýlátnum Marc-Vivien Foé fyrir framan sig. AFP

Síðar kom fram að Foé hafði verið slappur fyrir leikinn og þjálfari Kamerúns, Winfried Schäfer, hafði áform um að taka hann af velli nokkrum mínútum áður en hann hneig niður vegna þess að honum fannst hann orðinn þreyttur. Foé mátti ekki heyra á það minnst; hann ætlaði sér að ljúka leiknum.

Þrátt fyrir andmæli leikmanna var ákveðið að úrslitaleikurinn milli Kamerúns og Frakklands skyldi fara fram og ógleymanlegt er hófstillt fagn Thierrys Henrys, sem gerði gullmark fyrir Frakka í framlengingu, þegar hann drúpti höfði og benti til himins. Fyrirliðar liðanna, Marcel Desailly og Rigobert Song, tóku svo í sameiningu á móti bikarnum. Samstaða, eining og virðing, eins og hún gerist best í knattspyrnu.

Foé var leikmaður í háum gæðaflokki og lék með Lens og Lyon í Frakklandi og West Ham United og Manchester City á Englandi.

121 tilvik á öldinni

Andlát Foés í miðjum kappleik er alls ekkert einsdæmi; bara á þessu ári eru tvö skráð tilvik, samkvæmt Wikipediu, þar sem atvinnuknattspyrnumaður hefur látist af völdum hjartastopps, Brasilíumaður og Króati, báðir 24 ára. Þá lést 33 ára Jamaíkumaður í apríl eftir að hafa liðið út af í leik en dánarorsök liggur ekki fyrir. Fjórða dauðsfallið á árinu er 23 ára Egypti sem gleypti tungu sína í leik.

Þrjú dauðsföll voru skráð í fyrra og jafnmörg í hittifyrra, fjögur 2018 og sjö 2017, mest af völdum hjartaáfalla. Mest eru þetta lítt eða óþekktir leikmenn og fyrir vikið fóru þessi mál ekki hátt á alþjóðavettvangi. Frá upphafi tilgreinir Wikipedia 185 tilvik, þar af 121 á þessari öld.

Nokkur mál fóru hátt árin eftir að Foé féll frá. Árið 2004 lést Ungverjinn Miklós Fehér, 24 ára, í leik með Benfica gegn Vitória de Guimarães í Portúgal. Hann var þá til þess að gera nýkominn inn á sem varamaður þegar hann féll til jarðar og fór í hjartastopp. Ekki tókst að lífga hann við. Banamein hans hjartavöðvakvilli – sama mein og hrjáði Foé.

Spánverjinn Antonio Puerta studdur af velli eftir að hafa hnigið …
Spánverjinn Antonio Puerta studdur af velli eftir að hafa hnigið niður í leik með Sevilla gegn Getafe árið 2007. Hann fór aftur í hjartastopp í klefanum og skömmu síðar var hann allur. AFP

Sömu sögu er að segja af spænska landsliðsmanninum Antonio Puerta, sem féll niður og lést í leik með Sevilla gegn Getafe árið 2007. Hann komst að vísu til meðvitundar aftur en fór öðru sinni í hjartastopp í búningsklefanum skömmu síðar. Puerta var fluttur á spítala, þar sem hann lést tveimur dögum síðar. Hann var aðeins 22 ára.

Nánar er fjallað um skyndidauða og önnur andlát sem tengast knattspyrnuiðkun í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Lesa má umfjöllunina í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert