Sá sigursælasti í sögunni með á Ólympíuleikana

Dani Alves, hér í leik með Sao Paulo, er sigursælasti …
Dani Alves, hér í leik með Sao Paulo, er sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar. AFP

Dani Alves, sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar, er hvergi nærri hættur þrátt fyrir að vera orðinn 38 ára og mun nú freista þess að bæta ólympíugulli í safnið. Var hann valinn í brasilíska landsliðið sem tekur þátt á Ólympíuleikunum í sumar.

Landsliðshópar liðanna sem taka þátt á leikunum í Tókýó í Japan eru fyrst og fremst skipaðir leikmönnum sem eru 23 ára og yngri, en einnig má velja þrjá leikmenn sem eru eldri.

Dani Alves, sem leikur nú með Sao Paulo í heimalandinu, er einn af þeim, ásamt Diego Carlos, miðverði Sevilla, og Santos, markverði Athletico Paranaense.

Alves hefur samtals unnið 42 titla með félagsliðum sínum og brasilíska A-landsliðinu. Langflestir þeirra, 23 talsins, komu með Barcelona þar sem hann lék um níu ára skeið.

Í brasilíska hópnum fyrir Ólympíuleikana eru nokkur þekkt andlit, þar á meðal Gabriel, miðvörður Arsenal, Douglas Luiz, varnartengiliður Aston Villa, og Malcom, sóknarmaður Zenit Sankti Pétursborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert