„Ég er samkynhneigður knattspyrnumaður“

Josh Cavallo, miðjumaður ástralska knattspyrnufélagsins Adelaide United, kom úr úr skápnum á dögunum og viðurkenndi opinberlega samkynhneigð sína. 

Samkynhneigð í knattspyrnuheiminum hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár en fyrrverandi leikmenn, sem komið hafa út úr skápnum eftir að ferlinum lauk, hafa viðurkennt að umhverfið í fótboltanum sé ekki tilbúið fyrir samkynhneigða knattspyrnumenn.

„Ég er með persónuleg skilaboð sem ég vil deila með öðrum,“ sagði Cavallo í myndbandi sem birtist á Twitter-síðu ástralska A-deildarfélagsins.

„Ég er samkynhneigður knattspyrnumaður. Það hefur verið verðugt verkefni að komast á þann stað sem ég er í dag en ég gæti ekki verið ánægðari með þá ákvörðun mína að opinbera kynhneigð mína.

Ég er búinn að vera berjast við sjálfan mig í sex ár um að leysa frá skjóðunni og ég er virkilega ánægður og stoltur af sjálfum mér að hafa látið verða af þessu. Ég hef alltaf skammast mín fyrir það hver ég.

Ég lifði í blekkingu og taldi að ég gæti aldrei gert það sem ég elska, sem er að spila fótbolta, og vera opinberlega samkynhneigður á sama tíma. Það var einhvernvegin aldrei inn í myndinni að þetta tvennt færi saman,“ sagði Cavallo meðal annars í yfirlýsingu sinni.

Josh Cavallo.
Josh Cavallo. Ljósmynd/@JoshuaCavallo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert