Bodö/Glimt glutraði niður forystu – Viðar og Samúel skoruðu

Alfons Sampsted og félögum í Bodö/Glimt mistókst að tryggja sér …
Alfons Sampsted og félögum í Bodö/Glimt mistókst að tryggja sér norska meistaratitilinn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Alfons Sampsted og félagar í Bodö/Glimt fóru illa að ráði sínu þegar þeir glutruðu niður tveggja marka forystu gegn Brann í næstsíðustu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Bodö var 2:0 yfir og virtist með meistaratitilinn í höndunum þegar Niklas Jensen Wassberg minnkaði muninn fyrir Brann á 79. mínútu. Bård Finne jafnaði svo metin á þriðju mínútu uppbótartíma og kom þannig í veg fyrir að Bodö tryggði sér norska meistaratitilinn annað tímabilið í röð.

Alfons lék allan leiki fyrir Bodö/Glimt sem nægir jafntefli gegn botnliði Mjöndalen á útivelli í lokaumferðinni til að gulltryggja sér titilinn.

Molde gerði einnig jafntefli í sínum leik þar sem Lilleström jafnaði metin í 3:3 á 89. mínútu.

Fyrir lokaumferðina er Bodö því áfram þremur stigum á undan Molde, en fari svo að liðin endi jöfn að stigum verður litið til markatölu. Þar munar tveimur mörkum og Molde verður meistari ef liðið vinnur Haugesund á útivelli og Bodö/Glimt tapar fyrir Mjöndalen.

Viðar Ari Jónsson heldur áfram að fara á kostum með Sandefjord. Hann lék allan leikinn og skoraði fyrsta mark leiksins í 3:2 sigri gegn Kristiansund. Brynjólfur Willumsson kom inn á sem varamaður hjá Kristiansund á 66. mínútu.

Samúel Kári Friðjónsson kom svo inn á sem varamaður strax á 11. mínútu og skoraði þriðja mark Vikings þegar liðið vann Odd 3:1. Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark Vikings í leiknum.

Hólmar Örn Eyjólfsson var svo allan tímann í vörn Rosenborg sem vann sterkan 3:1 útisigur á Stabæk.

Adam Örn Arnarson lék fyrstu 64 mínúturnar í 1:0 sigri Tromsö gegn Sarpsborg.

Valdimar Þór Ingimundarson kom þá inn á sem varamaður fyrir Strömsgodset í markalausu jafntefli liðsins gegn Haugesund en Ari Leifsson var ekki með Strömsgodset þar sem hann tók út leikbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert