Meistararnir samþykktu tilboð SönderjyskE

Atli Barkarson er á leið til Danmerkur.
Atli Barkarson er á leið til Danmerkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslandsmeistarar Víkings úr Reykjavík hafa samþykkt tilboð danska úrvalsdeildarfélagsins SönderjyskE í knattspyrnumanninn Atla Barkarson. Þetta staðfesti Kári árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, í samtali við fótbolta.net.

Atli, sem er tvítugur, lék lykilhlutverk með Víkingum sem urðu Íslands- og bikarmeistarar á síðustu leiktíð en hann hefur verið sterklega orðaður við atvinnumennsku undanfarnar vikur.

Hann er uppalinn hjá Völsungi á Húsavík en gekk til liðs við Norwich árið 2017. Hann lék einnig með Fredrikstad í Noregi áður en hann gekk til liðs við Víkinga árið 2020.

Alls á hann að baki 36 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað eitt mark og þá á hann að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland.

Atli verður annar Íslendingurinn í herbúðum SönderjyskE en Kristófer Ingi Kristinsson er einnig samningsbundinn danska úrvalsdeildarfélaginu sem er með 10 stig í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert