Skoraði fyrsta markið eftir 25 mínútur

Orri Steinn Óskarsson var á skotskónum í dag.
Orri Steinn Óskarsson var á skotskónum í dag. Ljósmynd/Köbenhavn

Orri Steinn Óskarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðallið danska knattspyrnufélagsins Köbenhavn í æfingaleik gegn Hvidovre í Danmörku í dag.

Þetta var hans fyrsti leikur fyrir aðallið félagsins en það tók hann 25 mínútur að opna markareikninginn eftir laglega stungusendingu Ísaks Bergmanns Jóhannessonar.

Orri gekk til liðs við félagið árið 2019 og hefur raðað inn mörkunum fyrir U19-ára lið félagsins.

Leiknum lauk með 3:1-sigri Köbenhavn en Hákon Arnar Haraldsson skoraði annað mark Köbenhavn í leiknum á 70. mínútu.

Þeir Orri Steinn, Ísak Bergmann og Andri Fannar Baldursson voru allir í byrjunarliði Köbenhavn í dag en fóru af velli í hálfleik. Hákon Arnar kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Keppni í dönsku úrvalsdeildinni hefst á nýjan leik hinn 18. febrúar eftir vetrarfrí en Köbenhavn er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig, tveimur stigum minna en topplið Midtjylland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert