Elísabet er fyrirmynd þjálfara karlaliðs Kalmar

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad.
Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad. Ljósmynd/@_OBOSDamallsv

Henrik Rydström, þjálfari karlaliðs Kalmar, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir að Elísabet Gunnarsdóttir sé sá þjálfari sem hafi veitt sér sinn mesta innblástur í sínu starfi.

Rydström, sem var kjörinn þjálfari ársins í karladeildinni fyrir árið 2021, skýrði frá þessu í viðtali við hlaðvarpsþætti hjá félagi sínu. Aðspurður hvaðan hann hafi fengið sínar helstu hugmyndir við þjálfun nefndi hann enga af keppinautum sínum í úrvalsdeild karla, heldur séu það leiðtogahæfileikar Elísabetar hjá kvennaliði Kristianstad sem hafi hrifið hann mest.

„Það væri gaman að fara til Kristianstad, hitta hana og sjá með eigin augum það sem hún er að gera," sagði Rydström í viðtalinu. Hann er með lið sitt í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar.

Elísabet hefur þjálfað kvennalið Kristianstad frá árinu 2009 og hægt og rólega byggt liðið upp í að vera eitt það besta í Svíþjóð og hefur það komist í undankeppni Meistaradeildarinnar tvö ár í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert