Brynjólfur lagði upp í átta marka leik

Brynjólfur Willumsson.
Brynjólfur Willumsson. Ljósmynd/KSÍ

Brynjólfur Willumsson, fyrirliði íslenska U21 landsliðsins í fótbolta, lagði upp mark í 4:4 jafntefli Kristiansund og Rosenborg í norsku úrvalsdeild karla í dag.

Brynjólfur var í byrjunarliði Kristiansund að vanda og lagði upp fyrsta mark leiksins er Sander Erik Kartum kom heimamönnum í forystu á 24. mínútu.

Þá rigndi inn mörkum næstu tíu mínúturnar. Leo Cornic jafnaði fyrst fyrir Rosenborg á 26. mínútu en Benedik Bye og Snorre Nilsen sáu til þess að Kristiansund leiddi 3:1 í hálfleik.

Casper Tengstedt skoraði tvö mörk og jafnaði fyrir gestina í 3:3 áður en Victor Jensen kom þeim yfir. Sam Rogers setti svo boltann í eigið net á 90. mínútu og jafntefli því niðurstaðan.

Kristall Máni Ingason lék ekki með Rosenborg í dag vegna meiðsla. Kristiansund er í næstneðsta sæti með 17 stig, sex stigum frá Sandefjord í 14. sæti, en liðið sem endar þar fer í umspil um að halda sæti sínu í deildinni.

Rosenborg er í þriðja sæti með 44 stig, einu stigi á eftir Bodö/Glimt sem er í öðru sæti en Molde er með 15 stiga forskot á toppnum.

Patrik Sigurður Gunnarsson var allan tímann í markinu hjá Viking sem tapaði 2:1 gegn Álasund í sömu deild. Viking er nú í 7. sæti með 33 stig. Álasund er í 12. sæti með 28 stig.

Davíð Kristján Ólafsson kom þá inn af bekknum þegar rúmar 20 mínútur voru eftir er liðsfélagar hans í Kalmar unnu 2:0 sigur gegn Helsingborg í efstu deildinni í Svíþjóð.

Kalmar situr í 5. sæti með 41 stig eftir 24 leiki, sjö stigum frá toppsætinu.

Aron Bjarnason spilaði allan leikinn með Sirius er liðið gerði 1:1 jafntefli við AIK í sömu deild. Óli Valur Ómarsson leikur einnig með Sirius en hann kom inn á þegar átta mínútur voru eftir. Sirius situr í 12. sæti með 26 stig. AIK er í 6. sæti með 41 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert