Hörður og félagar með fullt hús eftir sigur í Íslendingaslag

Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Yeremi Pino í vináttulandsleik …
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu við Yeremi Pino í vináttulandsleik Spánar og Íslands. AFP/Javier Soriano

Panathinaikos hafði betur gegn PAOK, 2:1, í toppslag í grísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Hörður Björgvin Magnússon og Sverrir Ingi Ingason léku báðir allan leikinn í vörn sinna liða.

Nélson Olivera kom heimamönnum í PAOK í forystu á 18. mínútu og leiddi liðið með einu marki í leikhléi.

Snemma í síðari hálfleik, á 51. mínútu, jafnaði Aitor Cantalapiedra metin fyrir Panathinaikos og hann var svo aftur á ferðinni þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 73. mínútu sem var dæmd eftir athugun í VAR-skjánum.

Það reyndist sigurmarkið og Panathinaikos er því sem fyrr eitt á toppi grísku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga, 18, að loknum sex leikjum.

Um fyrsta tap PAOK á tímabilinu var að ræða, en liðið er í 4. sæti með 11 stig.

Hörður Björgvin lék allan leikinn í miðri vörn Panathinaikos og Sverrir Ingi sömuleiðis í miðri vörn PAOK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert