Árni leikmaður vikunnar í Bandaríkjunum

Árni Eyþór Hreiðarsson í leik með Husson Eagles á tímabilinu.
Árni Eyþór Hreiðarsson í leik með Husson Eagles á tímabilinu. Ljósmynd/Husson Eagles

Íslenski knattspyrnumaðurinn Árni Eyþór Hreiðarsson, leikmaður Husson Eagles í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, var valinn leikmaður vikunnar í NAC-deildinni eftir að hafa skorað þrjú mörk í tveimur sigrum liðsins, þar á meðal tvö sigurmörk, í síðustu viku.

Husson-háskólinn er staðsettur í Bangor í Maine-fylki í Bandaríkjunum og var sóknarmaðurinn Árni tekinn tali af Fox Bangor í tilefni af því að hann var valinn leikmaður vikunnar í deildinni.

„Við erum með fjölda góðra leikmanna og sömuleiðis frábæra leikmenn á varamannabekknum sem geta komið inn á og breytt leikjum.

Við vinnum vel saman, við erum með frábæra leikmenn og frábært fólk hérna yfir höfuð,“ sagði Árni.

Hann er á sínu öðru ári með Husson Eagles og nýtur sín vel í Bandaríkjunum.

„Þetta hefur verið mjög áhugavert. Þetta er mjög ólíkt Íslandi. Þetta hefur svo sannarlega verið frábært ferðalag þar sem ég hef kynnst fjölda ólíks og góðs fólks,“ bætti Árni við.

Þjálfari liðsins, Gavin Penny, var einnig tekinn tali og hrósaði Árna í hástert.

„Hann er gífurlega ógnandi í hvert skipti sem hann spilar frammi. Hann slítur varnir í sundur, hann pressar frábærlega og vinnusemi hans á sér engan líka.

Það er enginn vafi á því að hann er besti framherji deildarinnar og hann er byrjaður að sýna fram á það,“ sagði Penny.

Hann hélt áfram:

„Árni er mikill karakter, það er skemmtilegt þegar maður kynnist honum. Hann fór hægt af stað en eftir að hann kom aðeins út úr skelinni og byrjaði að skora mörk á síðasta ári féllu strákarnir fyrir honum.“

Árni Eyþór er 21 árs gamall, uppalinn hjá Stjörnunni og hefur leikið með KFG í fjórðu efstu deild hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert