Heiðar hafnaði tilboði Kvik

Heiðar Geir Júlíusson í leik með Fylki á sínum tíma.
Heiðar Geir Júlíusson í leik með Fylki á sínum tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heiðar Geir Júlíusson verður ekki áfram þjálfari norska C-deildarliðsins Kvik Halden í knattspyrnu karla eftir að hann hafnaði nýju samningstilboði félagsins.

Heiðar Geir tók við starfinu af Jörgen Strand á síðasta tímabili og vildi Kvik halda samstarfinu áfram en samningar tókust ekki.

Hann staðfesti tíðindin í samtali við staðarblaðið Halden Arbeiderblad.

„Það er rétt að við náðum ekki samkomulagi um að ég haldi áfram sem þjálfari. Ég vil ekki tjá mig frekar um það fyrr en félagið hefur útskýrt allt saman,“ sagði Heiðar Geir.

Nils Erik Krosvik, formaður Kvik Halden, sagði í samtali við blaðið að félagið hafi viljað halda Heiðari Geir sem þjálfara þar sem ánægja ríkti með störf hans. Því hafi ætlunin hjá félaginu verið að halda samstarfinu áfram á næsta ári.

Áður en Heiðar Geir tók við starfi aðalþjálfara hjá Kvik var hann aðstoðarþjálfari liðsins auk þess sem hann gegndi öðrum hlutverkum hjá félaginu þar á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert