Pelé kveðst sterkur og vongóður

Í Doha í Katar má sjá risastóran borða þar sem …
Í Doha í Katar má sjá risastóran borða þar sem Pelé er óskað góðs bata. AFP/Nelson Almeida

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé sagðist í kvöld vera sterkur og vongóður, þrátt fyrir að brasilískt dagblað hefði skýrt frá því í morgun að hann væri kominn á líknandi meðferð á sjúkrahúsi í Sao Paulo.

„Ég vil að allir haldi ró sinni og séu jákvæðir. Ég held áfram í minni meðferð," skrifaði Pelé á Instagram en hann hefur dvalið á Albert Einstein sjúkrahúsinu í Sao Paulo síðan á þriðjudag þar sem hann glímir við ristilkrabbamein.

Sjúkrahúsið hafði á föstudagskvöldinu skýrt frá því að heilsa Pelé væri stöðug, hann hefði brugðist vel við meðferð við sýkingu í öndunarfærum og að honum hefði ekkert hrakað síðasta sólarhringinn. Talsmenn þess vildu ekki staðfesta frétt blaðsins Folha de S.Paulo um að hann væri kominn á líknandi meðferð.

Dóttir hans, Kely Nascimento, er í Katar að fylgjast með heimsmeistaramótinu. „Fjölmiðlarnir eru að tapa sér enn og aftur," sagði hún á samfélagsmiðlum og kvaðst ekki þurfa að flýta sér heim frá Katar með næstu vél.

Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá Pelé leika listir sínar og m.a. framkvæma ýmsa snilldartakta áður en aðrir vöktu athygli fyrir sömu kúnstir:

Pelé á fréttamannafundi fyrir nokkrum árum.
Pelé á fréttamannafundi fyrir nokkrum árum. AFP/Miguel Schincariol
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert