Fjórar þjóðir sækja saman um HM 2030

Mikið var um dýrðir í Buenos Ayres þegar Argentínumenn komu …
Mikið var um dýrðir í Buenos Ayres þegar Argentínumenn komu heim með heimsmeistarastyttuna í desember 2022. Nú vilja þeir halda HM 2030 með grannþjóðum sínum. AFP/Luis Robayo

Suður-Ameríkuþjóðirnar Argentína, Úrúgvæ, Síle og Paragvæ hafa formlega sótt í sameiningu um að halda heimsmeistaramót karla í knattspyrnu árið 2030.

Það yrði sögulegt því fyrsta heimsmeistaramótið var haldið í Úrúgvæ árið 1930 og því yrði um aldarafmæli keppninnar að ræða.

Unnið hefur verið að umsókninni í langan tíma en Úrúgvæ og Argentína hófu viðræður árið 2017 um að standa saman að henni. Paragvæ bættist fljótlega í hópinn og Síle tveimur árum síðar.

Úrúgvæ hélt HM árið 1930, Síle árið 1962 og Argentína árið 1978 en keppnin hefur aldrei farið fram í Paragvæ.

Frá því keppnin fór fram í Argentínu árið 1978 hefur hún aðeins einu sinni verið haldin í Suður-Ameríku en það var í Brasilíu árið 2014.

Þetta er fyrsta formlega umsóknin sem Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, fær um mótshaldið 2030 en ljóst er að þjóðirnar fjórar fá talsverða samkeppni um gestgjafahlutverkið.

Þegar liggur fyrir að Marokkó ætlar að sækja um að halda keppnina en það verður í sjötta skipti sem Afríkuþjóðin freistar þess að fá HM til sín. Hingað til hafa umsóknirnar ekki borið árangur en Marokkó sótti um að fá keppnina árin 1994, 1998, 2006, 2010 og 2026.

Túnis og Alsír, grannþjóðir Marokkó í Norður-Afríku, hafa einnig skoðað möguleikana á að þjóðirnar þrjár sæki um í sameiningu.

Evrópuþjóðirnar Spánn, Portúgal og Úkraína hafa staðfest að þær muni sækja um keppnina í sameiningu.

Þá hafa margar fleiri þjóðir sýnt áhuga á að halda HM 2030. Þar má nefna Egyptaland, Grikkland og Sádi-Arabíu sem hafa hug á sameiginlegu mótshaldi en þá færi keppnin fram í þremur heimsálfum.

Suður-Kórea, Ástralía og Kína hafa öll skoðað möguleikana, ein og sér eða í samvinnu við nágrannaþjóðir.  Kamerún er líka áhugasamt og þar gætu nokkur af grannríkjunum í Afríku komið til greina, og þá hafa þrjár Suður-Ameríkuþjóðir í viðbót, Kólumbía, Ekvador og Perú, kannað grundvöllinn fyrir sameiginlegri umsókn.

Kosið verður um mótshaldið á þingi FIFA á næsta ári, 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert