Alberti hrósað í hástert

Albert Guðmundsson í leik með Genoa.
Albert Guðmundsson í leik með Genoa. Ljósmynd/Skjáskot Twitter Sportlive

„Sigurlið reiða sig á jafnvægi. Þrátt fyrir það er óhjákvæmilegt að í hverju þeirra sé einn leikmaður sem getur lyft liðsfélögum sínum upp á hærra plan og unnið leiki upp á sitt einsdæmi. Í liði Genoa er það Albert Guðmundsson.“

Þannig hefst athyglisverð grein á fótboltamiðlinum One Football, sem birt var fyrir helgi.

Knattspyrnumaðurinn Albert hefur leikið afar vel fyrir Genoa í ítölsku B-deildinni á yfirstandandi tímabili, þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp fimm til viðbótar. Liðið er í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í A-deildinni að nýju.

„Hann skóp fallegar minningar hjá AZ Alkmaar en er búinn að sýna það og sanna að hann býr yfir réttum eiginleikum og persónuleika til þess að leiða félag sem býr yfir jafn ríkulegri sögu og Genoa, og leiða það til sigurs.

Genoa er líklega rétti staðurinn fyrir sérstaka hæfileika hans. Tölfræðin hingað til staðfestir hvernig hann hefur vaxið: sex mörk, fimm stoðsendingar, 48 sköpuð færi og jafn margir heppnaðir sprettir með bolta, 80 prósent heppnaðra sendinga og 1215 snertingar.

Albert er einstakur leikmaður sem erfitt er að setja í einhvern ramma. Albert má gera það sem honum lystir á vellinum. Hann getur verið á kantinum eða miðsvæðis. Hann veit hvernig á að gera allt vel eins og alvöru leikmaður frá Genoa,“ sagði einnig í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert