Pavard hetja Frakka – Aké skoraði tvö fyrir Holland

Benjamin Pavard fagnar ásamt liðsfélögum sínum í kvöld.
Benjamin Pavard fagnar ásamt liðsfélögum sínum í kvöld. AFP/Paul Faith

Benjamin Pavard skoraði sigurmark Frakklands þegar liðið heimsótti Írland í B-riðli undankeppni EM 2024 í knattspyrnu í Dublin í kvöld.

Leiknum lauk með naumum sigri Frakka, 1:0, en Pavard skoraði sigurmarkið strax í upphafi síðari hálfleiks.

Þá skoraði Nathan Aké tvö mörk fyrir Holland þegar liðið vann 3:0-sigur gegn Gíbraltar í Rotterdam en Mempis Depay var einnig á skotskónum fyrir Holland.

Frakkar eru með fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins en Holland er í þriðja sætinu með þrjú stig, líkt og Grikkland, sem á leik til góða á Frakka og Holland.

Karol Swiderski tryggði Pólverjum sigurinn.
Karol Swiderski tryggði Pólverjum sigurinn. AFP/Janel Skarzynski

Karol Swiderski skoraði sigurmark Pólverja þegar liðið tók á móti Albaníu í Varsjá í E-riðli en leiknum lauk með 1:0-sigri Pólverja.

Á sama tíma gerðu Moldóva og Tékkland markalaust jafntefli í Chisinau en Tékkar eru í efsta sæti riðilsins með fjögur stig og Pólland er í öðru sætinu með þrjú stig.

Emil Forsberg var á skotskónum.
Emil Forsberg var á skotskónum. AFP/Fredrik Sandberg

Í F-riðlinum vann Svíþjóð 5:0-stórsigur gegn Aserbaídsjan í Solna þar sem þeir Emil Forsberg, Viktor Gyökeres, Jesper Karlsson og Anthony Elanga skoruðu mörk Svía og þá varð Bahul Mustafazada fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Í hinum leik riðilsins vann Austurríki 2:1-sigur gegn Eistlandi í Linz þar sem Florian Kainz og Michael Gregoritsch skoruðu mörk Austurríkis á meðan Rauno Sappinen skoraði mark Eistlands.

Austurríki er í efsta sæti riðilsins með sex stig en Belgar eru í öðru sætinu með þrjú stig en eiga leik til góða á Austurríki og Svíþjóð en Svíar eru í þriðja sætinu með þrjú stig.

Ungverjar fagna marki í kvöld.
Ungverjar fagna marki í kvöld. AFP/Attila Kisbenedek

Þá unnu Ungverjar 3:0-sigur gegn Búlgaríu í Búdapest í G-riðlinum þar sem Bálint Véscei, Dominik Szoboszlai og Marin Ádám skoruðu mörk Ungverja.

Dusan Vlahovic skoraði svo bæði mörk Serbíu þegar liðið heimsótti Svartfjallaland í Podgorica en leiknum lauk með 2:0-sigri Serba.

Serbía er með fullt hús stiga eða sex stig í efsta sætinu en Ungverjaland kemur þar á eftir með þrjú stig en á leik til góða á Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert