Svava fékk vítaspyrnu í sigri í fyrsta leik

Svava Rós Guðmundsdóttir, lengst til vinstri, fagnar marki ásamt liðsfélögum …
Svava Rós Guðmundsdóttir, lengst til vinstri, fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum í nótt. AFP/Katharine Lotze

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, og liðsfélagar hennar í Gotham hófu tímabilið í bandarísku NWSL-deildinni með besta móti í nótt.

Liðið heimsótti Angel City til Los Angeles í fyrstu umferð deildarinnar, þeirri efstu í Bandaríkjunum, og hafði að lokum góðan 2:1-sigur.

Alyssa Thompson kom heimakonum í Angel City í forystu eftir ellefu mínútna leik og leiddu þær með einu marki þegar flautað var til leikhlés.

Til þess að hressa upp á sóknarleik Gotham kom Svava Rós inn á sem varamaður í hálfleik, í sínum fyrsta keppnisleik fyrir liðið.

Ekki var hún lengi að láta að sér kveða þar sem brotið var á Svövu Rós innan vítateigs á 53. mínútu. Í fyrstu var brotið látið óátalið en eftir að dómarinn ráðfærði sig við VAR-skjáinn ákvað hann að dæma vítaspyrnu.

Á vítapunktinn steig Margaret Purce og skoraði af öryggi á 55. mínútu og staðan var þá orðin 1:1.

Stuttu síðar, á 64. mínútu, kom Purce boltanum á Lynn Williams sem skoraði með glæsilegu skoti í sínum fyrsta leik fyrir Gotham.

Gestirnir voru þar með búnir að snúa við taflinu og tryggðu sér góðan eins marks endurkomusigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert